ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Reiði

Reiði er sú tilfinning sem hvað oftast er fundið allt til foráttu og er það ekki heldur að ástæðulausu. Við heyrum í fréttum um hina og þessa ofbeldis glæpina sem framdir eru og er þá reiðin óhaminn í aðalhlutverki. Margur fíkillinn á líka erfitt með þessa tilfinningu og notar fíkn sína til að takast á við reiðina. Svo það er ekki að ástæðulausu að allar hinar stærri sálmeðferðar stefnur hafa mikið og margt að segja um reiðina.

En er reiðin svo slæm? Þegar fylgst er með ungabörnum þá tökum við eftir því að ein af þeim tilfinnigum sem börnin tjá er reiði samhliða gleði, sorg og öðrum tilfinningum. Þannig að það er augljóst að áður en lítil börn fá upplýsingar um hvað er þjóðfélagslega samþykkt þá eiga þau ekki erfitt með að sýna reiði.  Þegar lengra líður á uppeldið er ekki óalgengt að heyra foreldra skamma barnið sitt fyrir að vera reitt og er þar með skilaboðunum komið til skila að reiðin sé ekki í lagi. Þá getur stundum verið erfitt fyrir barnið að höndla þessa tilfinningu og gerist það þá oft að barnið fer að bæla reiðina af ótta við að vera skammað eða hafnað.

Reiði sem tilfinning er í raun ekki slæm heldur er það hvernig hún er höndluð og hversu stóran þátt hún spilar í sálarlífinu sem skiptir máli. Tilfinningar eru bara tilfinningar og eru hvorki góðar né slæmar heldur hafa þær allar ákveðnu hlutverki að gegna í sálarlífinu. Tilgangur reiðinar er að hjálpa okkur að setja öðrum mörk og að standa vörð um eigið sjálf. Þeir sem ekki hafa aðgang að reiðinni sinni eiga oft erfitt með að setja öðrum mörk og standa upp fyrir sjálfan sig og er þunglyndi oft ekki langt handan við hornið. Það sem skiptir máli er hvernig reiðin er tjáð en þar eru margar útgáfur á.

Til eru þeir sem byrgja reiðina inni og springa síðan reglulega með miklum látum. Það er lítið gaman að verða fyrir því þegar viðkomandi springur þar sem maður fær þá kannski í fangið mánaðarskamt af uppsafnaðri reiði. Svo eru það þeir sem eru alltaf reiðir en þar er reiðin notuð eins og vörn gagnvart viðkvæmni og virkar hún þá eins og hálfgerður skjöldur fyrir viðkomandi. Það getur verið erfitt að vera í kringum svoleiðis einstaklinga því það er ekkert nema pirringur og reiði í gangi en lítið af öðrum tilfinningum. Síðan eru það þeir sem orðið hafa fyrir mikilli höfnun og eða hafa átt erfiða æsku sem burðast með mikla reiði og heift sem eru afleiðingar þeirra sára sem í þeim búa. Þeir eiga það til að missa stjórn á reiðini og beita þá gjarnan líkamlegu ofbeldi.

Síðan eru þeir sem hafa heilbrigðan aðgang að reiðini sinni og tjá hana þegar þar á við. Þegar á þá er gengið finna þeir fyrir styrk en koðna ekki niður og standa upp fyrir sig. Það endurspeglast síðan í heilbrigðu sálarlífi þar sem viðkomandi finnur fyrir sjálfstrausti en heilbrigð reiði er oft einn af grunnum góðs sjálfstraust.

Ef viðkomandi er að fást við mikla reiði eða á erfitt með að sýna reiði þá getur verið gott að leita til fagaðila og fá aðstoð að jafna hlutföll hennar við aðrar tilfinningar. Allir einstaklingar finna til reiði hversu heilagir sem þeir eru. Munurinn er einungs hvernig þeir höndla hana. Meira segja frelsarinn sjálfur reiddist eitt sinn duglega þegar hann kom í helgidóm Guðs og sá þá kaupmenn með vöru sína til sölu þar. Brást hann hinn reiðasti við og velti um borðum kaupmannana og lét í sér heyra. Kúnstin mikla er að tjá reiðina á réttum stað á réttri stund við réttan aðila í réttu magni. Það kallar á þroskað sálarlíf og góðan tilfinningarþroska sem við ættum öll að stefna að.

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc