ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Nánd

Hugtakið nánd er frekar nýtt af nálinni í íslenskri tungu. Nánd er skild hugtakinu nærveru, en til að geta upplifað nánd þarf ákveðin nærvera að vera til staðar. Það er þó munur á þessum upplifunum. Talað er um að þessi eða hinn hafi góða eða slæma nærveru en nánd lýsir aftur á móti upplifun af djúpum tilfinnigatengslum við aðra manneskju. Oftast upplifir fólk þetta ástand í ástarsamböndum og eða þá með börnum sínum og ættingjum. Þörf okkar fyrir nánd er mis mikil og þar er margt sem spilar inní. Nándin er þó mikilvægur partur af nærandi og þroskandi lífi og er hætt við að lífið verði frekar einmannalegt ef hennar nyti ekki við í einhverri mynd.

Hæfileiki okkar til að upplifa nánd er partur af hæfni okkar til að vera tilfinningalega opin. Ef við erum vön því að loka á tilfinningar okkar og eða þjáumst af skömm og lágu sjálfsmati þá er hætt við að erfitt geti reynst að opna fyrir annari manneskju og hleypa henni inn í okkar sálarlíf. Löngun okkar til að vera ástfangin er að mörgu leyti sprottin af þeirri þörf að upplifa nánd og tengjast annari manneskju djúpum böndum.

Tengslamyndun okkar í uppruna fjölskylduni hefur mikið með það að segja hvernig okkar hæfileiki til nándar þroskast. Hæfileikinn til að dvelja í nánd verður ekki kenndur með orðum heldur einungis með beinni upplifun af því að vera samþykktur, elskaður og dvelja í nánd. Ef við ölumst upp í fjölskyldu þar sem tengslamyndun er eðlileg og djúp, þá þróum við með okkur hæfileikan til að dvelja í nánd. Þar sem tengslamyndun er lítil og fjölskyldan er frekar tilfinningalega lokuð þá er viss hætta á að við lokum okkur af innra með okkur og upplifum erfiðleika við að dvelja í nánd. Ekki er það þar með sagt að við getum það ekki en hæfileiki okkar til nándar þarf þó að þjálfast og styrkjast.

Fyrir þann sem upplifir erfileika með nánd þá er vissulega ekki þar með sagt að hann þurfi bara að sætta sig við orðin hlut. Margt er hægt að gera til hjálpa viðkomandi að þroska með sér nándar hæfileikan. Eitt af því er til að mynda góð samtalsmeðferð sem stuðlar að tilfinningalegri opnun og sjálfskoðun. Sumar tegundir samtalsmeðferða vinna með upplifunina af nánd á meðan önnur form kjósa að skoða þær hugsanir sem stuðla að tilfinningalegri einangrun.Góður lestur bóka og þáttaka í 12-spora hópum getur líka hjálpað til þó það risti kannski ekki eins djúpt. Að verða ástfangin af annari manneskju er samt best kennarin og þá sérstaklega ef ást okkar er endurgoldin.

Í þjóðfélagi eins og við lifum í dag þar sem sífelt fleiri tabú eru tekin til endurskoðunar og áhersla er lögð á upplýsingaflæði mætti halda að hæfileiki okkar til að elska og dvelja í nánd skildi alment vera að aukast. Vissulega held ég að það sé rétt en þó er margt sem við þurfum að átta okkur á. Afþreyingarefni til að mynda sjónvarp, kvikmyndir og útvarp er mikið notað til að þurfa ekki að dvelja með sjálfum sér. Það er eins og þögnin verði krefjandi og óþægileg og við verðum að filla hana til að þurfa ekki að finna fyrir hvernig okkur líður. Hætta er á ef við getum ekki dvalið með sjálfum okkur þá muni það reynast erfitt að mynda sterk tilfinnigasambönd við aðra. Það er nú svo að forsendan fyrir nærandi sambandi við aðra er að eiga nærandi samband við sjálfan sig.

Og því miður er það oft svo að við viljum láta aðra filla okkur upp vegna vanhæfni okkar til að líða vel með sjálfum okkur.

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc