ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Meðvirkni

Hugtakið meðvirkni hefur verið áberandi í umræðunni hér á Íslandi síðastliðin áratug, en hugtakið kemur frá Bandaríkjunum, þar sem fyrst var farið að nefna meðvirkni á nafn í kringum 1983. Meðferð fyrir meðvirka einstaklinga hófst ári seinna, en í dag eru margar meðferðarstöðvar út um allan heim sem bjóða upp á slíka þjónustu. En hvað er meðvirkni? Hvernig birtist hún? Og síðast en ekki síst af hverju verðum við meðvirk?

Skilgreining meðvirkini er ekki sett í stein, því hugtakið er ennþá að taka breytingum og í stöðugri endurskoðun. Síðan 1983 hafa komið fram um 23 mismunandi skilgreinigar á meðvirkni. Því fer þó fjarri að þær greini á í einhverjum veigamiklum atriðum, heldur er frekar um blæbrigði að ræða. Einnig er spurning um hversu vítt hugtakið skuli túlkað. Fimm höfuðeinkenni meðvirks einstaklings, samkvæmt Pia Mellody (1989), sem staðist hafa tímans tönn, eru eftirfarandi:

1. Erfiðleikar með að upplifa stöðugt og gott sjálfsvirði
2. Erfiðleikar með að setja sér og öðrum mörk.
3. Erfiðleikar með að skilgreina og gangast við eigin upplifunum
4. Erfiðleikar með að skilgreina og mæta eigin þörfum.
5. Erfiðleikar með að hvíla í sjálfum sér og finna tilfinningum sínum heilbrigðan farveg
.

Þessi fimm höfuðeinkenni meðvirkni birtast í viðleitni einstaklingsins til að reyna að stjórna umhverfinu, í viðleitni hans til að láta sér líða vel. Önnur einkenni, eins og að taka ábyrgð á tilfinningum annarra, eru algeng sem og erfiðleikar í nánum samböndum. Ofuráhersla á stjórnun og tilraunir til að breyta öðrum eru kannski þau einkenni sem best eru þekkt, en þau eiga oft við aðstandendur alkóhólista sem og fullorðin börn fíkla og alkóhólista.

Einstaklingur sem þjáist af meðvirkni sækir sjálfsvirðingu sína til annarra. Hann verður háður því hvað öðrum finnst um hann. Vegna lágs sjálfsmats og erfiðleika við að hvíla í sjálfum sér sækir hann óspart í samþykki útávið og finnur þá aðeins fyrir mikilvægi sínu, ef honum er hrósað. Innra með sér er hinn meðvirki að kljást við skömm og einmanaleika samhliða tilfinninguni fyrir því að vera ekki í lagi sem manneskja. Segja má að sá meðvirki hafi í raun ekki neitt eigið sjálf, heldur stjórnist af umhverfi sínu eins og laufblað í vindi.

Algengustu tilfinningar meðvirks einstaklings eru sektarkend og skömm sem oft og einatt leiða til þunglyndis og kvíða. Af því að sá meðvirki kann í raun ekki að finna tilfinningum sínum farsælan farveg og/eða mæta þörfum sínum, þá verður til krónískt vanlíðunarástand. Líkamleg einkenni eins og höfuðverkur, meltingartruflanir, vöðvabólga og hár blóðþrýstingur samhliða svefntruflunum og svefnleysi, láta oft á sér kræla.

Fimm höfuðeinkenni meðvirkni hafa mikil áhrif á tengsl okkar við annað fólk. Í samskiptum eru meðvirkir oft óöruggir og reyna að laga sig að þeim sem þeir eru í samskiptum við. Þeir eru eins og kamelljón sem skipta um lit eftir því hvað á best við. Hinum meðvirku finnst sem þau hafi í raun og veru ekkert val. Þau eru knúin áfram af þörf sinni til að geðjast öðrum og hljóta samþykki, en undir niðri kraumar sársauki og lélegt sjálfsmat. Það þarf ekki mikið til að þau finni til höfnunar og oft fer mikil orka í það að búa svo um hnútana í ástarsamböndum að þeim verði örugglega ekki hafnað. Jafnvel er það til í dæminu að þau hafni áður en þeim verður hafnað til að sitja ekki uppi með sársaukann sem höfnun hefur í för með sér.

Orsök meðvirkni má oftast nær rekja til uppeldis í fjölskyldu sem var lokuð tilfinningalega. Það hversu vel okkur tekst að vera við sjálf og tjá tilfinningar og treysta þeim fer eftir því hvers konar fjölskyldu við komum úr ( sjá grein mína um ólíkar fjölskyldur). Í heilbrigðu fjölskyldulífi lærum við að hlusta og taka tillit til þarfa okkar sem og annarra og leysa tilfinningaleg vandamál. Gott sjálfsmat sem við tökum með okkur út í lífið verður grunnurinn að sterku heilbrigðu sjálfi sem síðan birtist í hæfileika okkar til að lifa lífinu á fullnægjandi hátt. Þegar fjölskyldan er frekar lokuð á fólk erfitt með að tjá tilfinningar sínar og efast um eigið ágæti. Þegar svo er komið fer hið sanna sjálf okkar í felur og viðkomandi fer að reyna að láta sér líða vel á meðvirkan hátt. Þá er stutt í að fólk verði fíknum að bráð í tilraun sinni til að láta sér líða vel, en fíknir eru oft mjög algengar hjá meðvirkum einstaklingum.

Þegar okkur verður ljóst að við erum meðvirk opnast okkur leið til að vinna úr málunum. Áður en meðvirkni er skilgreind er lítið hægt að gera annað en vona að aðstæður verði hagstæðar og valdi ekki kvíða og/eða vanlíðan.

Ein leið til þess að skilja hvernig batinn frá meðvirkni gengur fyrir sig er að hugsa sér að við séum að flysja lauk. Hvert lag er afleiðing þess að okkar sanna sjálf, sem er kjarni okkar, fór í felur og til varð falskt sjálf.

Í raun eru um þrjú aðal lög að ræða, sem síðan skiptast í fleiri undirlög.

• Fyrsta lagið er sambland af sársauka og tilfinningunni af því að vera týndur innra með sér. Upplifuninni er oft lýst þannig að maður sé týndur í þoku og veit ekki hvert ber að stefna.

• Annað lagið sem umlykur okkar sanna sjálf eru fíknir og ýmiss konar áráttukennt atferli ásamt tilfinningalegri ringulreið.

• Þriðja lagið og það síðasta sem umlykur okkar sanna sjálf inniber ótta, skömm og reiði (heift).

Hægt er að sjá þessi lög sem merki um og afleiðingar af okkar falska sjálfi. Undir þessum lögum hvílir síðan okkar sanna sjálf tilbúið að vera uppgötvað. Á bataferli okkar flysjum við þessi lög af hægt og rólega. Það gerist með því að við látum af afneitun á tilfinningar okkar. Við leyfum okkur að upplifa þær og tjá þær jafnframt því sem við göngumst við fjölskylduhlutverki okkar og styrkjumst í því að fylgja okkar innri rödd. Ekki er óalgengt að sá meðvirki þurfi að leyfa sér að syrgja, en sú sorg er ekki sprottin af því að vera í vanlíðan, heldur er hún hluti af bataferlinu, þegar maður tengist sínu sanna sjálfi.

Að losa um meðvirkni er tilfinningaferli sem vinnst með aðstoð rökhugsunar og getur tekið drjúgan tíma en ekki er hægt að segja að um einhvern endanlegan áfanga sé að ræða, því ef við viljum þá getum við haldið áfram að vaxa bæði andlega og tilfinningalega alla okkar æfi. Vert er að hafa í huga að hér er oft um margra ára gamalt samskipta og tilfinninga mustur að ræða aftur úr barnæsku sem við erum að fást við að umbreyta þannig að eðlilegt er að það taki nokkurn tíma.

Páll Einarsson MSc
Psychotherapist