ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Einelti

Fólk stendur oft ráðþrota þegar það verður fyrir því að vera lagt í einelti. Fer það þá líka eftir því á hvaða aldri eineltið á sér stað og hvernig viðkomandi er í stakk búinn til að takast á við þá miklu höfnun sem fylgir eineltinu. Hægt er að segja að einelti sé eins og hægfara sálarmorð. Það er eins og eitthvað deyi innra með manneskjunni í hvert skipti sem hún lendir í einelti.

Einelti getur átt sér stað á mörgum sviðum lífsins. Margir hafa orðið fyrir einelti í skóla eða hafa séð einhvern lagðan í einelti. Margir kannast líka við að hafa sjálfir lagt í einelti. Einelti á sér stað á vinnustöðum, í félagasamtökum og innan íþróttahreyfingarinnar, í fjölskyldunni, í vinahópum og í raun allstaðar þar sem hópur fólks kemur saman.

Það er skrítin iðja að leggja fólk í einelti og ástæðurnar fyrir því að níðast á öðrum geta verið margar og mismunandi. Skortur á tilfinningargreind stendur þó kannski upp úr. Viðkomandi skynjar ekki hversu mikil áhrif eineltið hefur á sálarlíf þess sem fyrir því verður. Sumir fá líka útrás fyrir minnmáttarkennd sína og óöryggi með því að leggja aðra í einelti. Á vinnustöðum finnst sumum gott að hafa einhvern sem athyglinni er beint að, svo það verði síður tekið eftir þeim sjálfum og þeirra brestum.

Eineltið getur tekið á sig margar myndir. Í skólanum er oft hreinlega hrópað að viðkomandi, hann kallaður nöfnum og jafnvel lagðar á hann hendur. Í fjölskyldunni gerist það stundum að eldri systkini leggja það yngra í einelti. Hér þurfa foreldrar að fylgjast vel með og vera á varðbergi, því ef viðkomandi líður ekki vel í fjölskyldunni þá er fokið í flest skjól. Í vinahópum er oft einn aðili sem alltaf er gert grín að. Það er nú þannig að saklaust grín er oft á tíðum alls ekki saklaust grín fyrir þá sem fyrir því verður.

Það fylgir því mikil skömm að vera lagður í einelti. Það að standa andspænis því að hópur fólk sameinast um að setja út á einn einstakling getur skapað mikinn sársauka og djúpstæða vanmáttarkennd. Verst er þetta þegar börn og unglingar lenda í þessu þar sem sjálfsmynd þeirra er að ennþá að mótast. Sá sem lendir í eineltinu fer hægt og rólega að trú að eitthvað sé að honum. Þessi tilfinning getur í raun sest að og verið erfitt að losa um hana seinna meir.

Þeir sem hafa orðið fyrir einelti búa gjarnan við ótta við að lenda í einelti aftur. Ekki er óalgengt að þeir sem fyrir eineltinu verða eigi eftir að líða illa í hópum seinna meir og upplifa óöryggi og kvíða. Sjálfsmyndin tekur líka sinn toll og sumir hafa þurft að sækja sér viðtalsmeðferð til að vinna úr eineltinu síðar á ævinni. Reiði og sársauki samfara skömm og niðurlægingu eru þær tilfinningar sem eftir sitja og eru þær missterkar eftir því hversu lengi eineltið stóð yfir og hversu svæsið það var.

Þeir sem fyrir eineltinu verða bregðast misjafnlega við og fer það þá oft eftir upplagi hvers og eins og einnig hvers konar einelti um er að ræða. Sumir hafa átt það til að fyllast hatri og ráðast á þá sem voru valdir að eineltinu. Aðrir fara inn í sig og reyna að láta líta út eins og allt sé í lagi. Aðrir reyna að svara fyrir sig með orðum og eineltisaðferðum. Algengast er að skömmin og niðurlægingin sem fólk finnur til verði það mikil að viðkomandi dregur sig ósjálfrátt inn í skel sína.

Þeir sem verða fyrir einelti eru oft fólk sem á erfitt með að standa með sér. Einnig segir sagan okkur að það fólk sem er öðruvísi en fjöldinn er líklegra til að verða fyrir háði og spotti en aðrir. Þetta er þó ekki algilt og í raun má segja að allir geta orðið fyrir einelti við ákveðnar aðstæður.

Þeim sem orðið hafa fyrir einelti má benda á samtök Regnbogabarna, en þau eru samtök fólks sem lent hafa í einelti. Vert er að hafa í huga að einelti er dauðans alvara, þar sem dæmi eru um að fólk hafi tekið líf sitt í kjölfar langvarandi eineltis. Sárin eru til staðar, þó ekki blæði úr þeim. Maður þarf að nota tilfinningaaugað til að sjá þau.

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc