ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Sjálfsvíg

Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin áætlar að um ein milljón manna fremji sjálfsvíg árlega (2003) og er þá varlega áætlað. Það er rúmlega þreföld íslenska þjóðin svona til að fá tilfinningu fyrir þessum mikla fjölda. Lengi vel var þeim hugmyndum haldið á lofti að þeir sem sviptu sig lífi ættu allir það sameiginlegt að vera þunglyndir, en sú kenning hefur ekki staðist tímans tönn. Í raun geta ástæður fyrir sjálfsvígum verið mjög margar, en óhætt er að segja að flestir þeirra sem svipta sig lífi eru að kljást við mikinn tilfinningalegan sársauka sem þeir ráða ekki fram úr. Sá sársauki getur átt rætur að rekja til sektarkenndar og djúpstæðrar skammar og/eða kvíða og þunglyndis. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að margir þeirra sem svipta sig lífi hafa verið greindir með geðsjúkdóm.

Jafnvel þó að sjálfsvígið birtist sem viðbragð við einhverju ákveðnu atviki, þá er yfirleitt lengri saga á bak við það. Þeir sem fremja sjálfsmorð hafa oftast nær átt við vanlíðan að stríða um langan tíma. Þeir hafa upplifað röð mistaka samfara kvíða og/eða missi sem hvert á fætur öðru hefur grafið æ meir undan lífslönguninni.  Þó eru dæmi um að börn og unglingar hafi upplifað löngun til að fyrirfara sér vegna eins einangraðs atviks og þá oftast nær vegna missis foreldris og þá sérstaklega þegar foreldri sviptir sig lífi.

Stundum er reynt að halda sjálfsvígum leyndum og liggur þar að baki ótti við að eitt sjálfsvíg geti sett að stað hrinu sjálfsvíga. Sú hefur og einnig orðið raunin og þá sérstaklega í litlum lokuðum samfélögum eins og úti á landi. Einnig virðast fréttir í fjölmiðlum um sjálfsvíg geta sett á fót öldu sjálfsvíga. Fyrir nokkrum árum framdi 18 ára gömul japönsk poppstjarna sjálfsmorð og í kjölfarið frömdu 33 unglingar sjálfsvíg en þeir höfðu verið miklir áhangendur hennar. Svipaðir atburðir hafa átt sér stað í Bandaríkjunum sem og í öðrum löndum, en yfirleitt virðist þetta þó frekar eiga við unglinga en fullorðið fólk.  

Talið er að um þrisvar sinnum fleiri karlmenn en konur svipti sig lífi að Kína undanskildu, en þar eru stúlkum ekki gert eins hátt undir höfði eins og drengjum innan fjölskyldunnar. Aftur á móti þá gera konur fleiri tilraunir til sjálfsvíga en karlar.  Ekki virðast allir á eitt sáttir um af hverju þessi munur á milli kynja stafar þegar kemur að sjálfsvígum, en þó er rétt að hafa í huga að rannsóknir sýna að konur hafa yfirhöfuð betri hæfileika til að láta sér líða vel og vinna úr tilfinningalegum vandamálum heldur en karlmenn. Vert er líka að geta þess að karlmenn eru mun líklegri til að greinast með alvarlega geðsjúkdóma heldur en konur, en sjálfsvíg eru hlutfallslega há hjá fólki með alvarlega geðsjúkdóma. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að lítill sem engin munur er milli kynja þegar kemur að ástæðum sjálfsvíga. Rannsökuð voru bréf sem skilin höfðu verið eftir þar sem viðkomendur greindu frá ástæðum sjálfsvígsins, en um 26 %  þeirra sem fyrirfara sér skilja eftir bréf þar sem viðkomandi gerir grein fyrir ástæðum sjálfsvígsins.

Margir sem finna til löngunar til að fremja sjálfsmorð eiga oft erfitt með að gera sér grein fyrir ástæðum þess. Margra ára innri einangrun og sambandsleysi við annað fólk skapar oft tilgangsleysi og einmanaleika. Þegar svo er ástatt er oft erfitt að koma auga á ástæður lífsleiðans, þar sem oft er ekki hægt að rekja hann til neins ákveðins atviks. Trúarbrögð mannkyns hafa gefið mörgu fólki tilgang í lífinu og hætt er við að ef þeirra nyti ekki við glímdu mun fleiri við tilgangsleysið. Þó eru til einstaklingar sem nota trúarbrögðin til að réttlæta sjálfsvíg sín en til þeirra telja hriðjuverkamenn margs konar. Þeir hafa túlkað boðskapinn á þann veg að með því að fórna lífinu fyrir málstaðinn bíði þeirra paradís á himnum. Þess konar sjálfsmorð eru ekki ný af nálinni, því þau voru algeng í seinni heimstyrjöldinni meðal japanskra hermanna. Hér er ekki á ferðinni vanlíðan sem leiðir til sjálfsvígs, heldur trúarfíkn í sinni verstu mynd í bland við hatur og skeytingarleysi fyrir lífi annarra.

Fyrir þá sem eru að kljást við lífsleiða og/eða löngun til að svipta sig lífi þá skiptir sköpum að leita sér aðstoðar hjá fagaðila Með réttri meðferð er hægt að vinna úr ástandinu og aðstoða viðkomandi á þann hátt að hann nái aftur tökum á sínu lífi.  

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc