ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Sjálfstraust

Öll langar okkur að hafa gott sjálfstraust og vera örugg með okkur. Það gefur auga leið að það greiðir leið okkar að markmiðum okkar og hjálpar okkur að vera sátt við sjálf okkur og lífið. Það er til marks um það hvað sjálfstraust er mikilvægt að það er orðið að mjög ábætisamri markaðsvöru í formi sjálfshjálpar bóka og námskeiða út um allan heim þar sem fólki er kennt að auka sjálfstraustið með hinum ýmsu aðferðum. Þar kennir hinna ýmsu grasa eða allt frá því að ganga á sjóðandi heitum kolum til þess að standa á sviði fyrir framan fullt af fólki og yfirvinna óttan.

Það má segja að sjálfstraust okkar sé birtingar form þess hvernig við sjáum sjálf okkur. Sjálfstraust lærist ávalt í æsku og er þá aðal atriðið hvernig tengslamyndun á sér stað innan fjölskyldunnar. Þar fáum við sterkustu skilaboðin um það hvort við séum í lagi eða ekki. Ef barni er sinnt vel og það fær mikinn tíma hjá sínum nánustu þá óneitanlega fær það á tilfinninguna að það sé elskað og það sé í lagi. Það verður síðan grunnurinn í heilbrigðu sjálfsvirði sem endurspeglast síðar meir í góðu sjálfstrausti.

Margt getur þó haft áhrif á sjálfstraust einstaklingsins annað en tengslamyndun innan fjölskyldunnar eins og einelti og margs konar áföll. Allt safnast þetta í einn sjóð innra með einstaklingnum og hann fer að efast um eigið ágæti. Þegar svo er komið getur verið erfitt að rata út. Það getur verið ágætt að ganga á kolum eða segja alltaf eitthvað “jákvætt” við sjálfan sig en ef ekki er tekist á við vanmatið beint og það skoðað þá er hætt við að lítil  breyting eigi sér stað.  

Þegar vanmatið er tekið til skoðunar kemur oftast í ljós að ýmislegt hefur haft áhrif á sjálfsmynd viðkomandi sem hefur gert það að verkum að viðkomandi hefur misst álit á sjálfum sér og eða hæfileikum sínum til að takast á við hin ýmsu verkefni. Í viðtalsmeðferð er unnið markvist úr vanmatinu með því að skoða bæði hugsanir og tilfinningar sem skapa hið lága sjálfstraust.

Fólk sem er með gott sjálfstraust þekkist á því að það þarf ekki að leika einhvern annan en það er og því virðist líða vel í eigin skinni. Það er oftast í góðu sambandi við tilfinningar sínar eins og sorg og reiði og getur leyft sér að tjá þær. Það er ekki með grímu og þarf ekki að “selja” sjálfan sig til að passa upp á að verða samþykkt af öðru fólki. Það sem einkennir þó mest þá sem eru með gott sjálfstraust frá öðrum, er að það er eins og þeir séu ávalt sanngjarnir við sjálfan sig og stundi það ekki að refsa sér eða taka sig í gegn. Þeir eru vinir sjálfs síns. Þetta er eftirsóknarverður þroski og er vissulega hægt að rækta þetta með sjálfum sér með því að fylgjast með því hvernig talað er við sjálfan sig og hvort gerðar eru kröfur um að maður ætti að vera svona eða öðruvísi.

Margir reyna að láta líta svo út að þeir séu með gott sjálfstraust þó að það eigi ekki fyrir því góða innistæðu. Það setur upp grímu þar sem það leikur að það hafi sjálfstraust en undir niðri kraumar óöryggið. Ein af grímunum er “sjálfstraust gríman” og er ekki óalgengt að flestir grípi til hennar einhvern tímann á ævinni þegar á þarf að halda.  Það er ekkert að því en verra er þegar viðkomandi þarf alltaf að vera með grímuna á lofti til að fela hvernig honum er innan brjóst.

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc