ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Ástarsambönd

Ekki veit ég hvað hafa verið samin mörg lög um ástina, en þau eru vægast sagt ófá. Maður opnar varla fyrir útvarpið án þess að heyra angurværar raddir syngja um horfna ást og einmanaleikann sem fylgir því að vera aftur orðin ein/n. Svo þegar textarnir eru krufnir kemur í ljós að hér er oftar á ferð mikil meðvirkni, samhliða vanhæfni til að líða vel með sjálfum sér, heldur en heilbrigð ástarsambönd.

Að vera ástfangin/n, að þiggja og gefa ást, er mikilvægt til að okkur líði vel, og hjá mörgum snýst lífið fyrst og fremst um það. Ástarsambönd geta oft verið flókin og jafn mikilvæg og gefandi sem þau geta verið, þá eru þau líka uppspretta sársauka og kvíða. Í ástarsamböndum opnum við fyrir tilfinningar okkar og hleypum annarri manneskju að okkar innsta helgidómi, okkar innra sjálfi sem yfirleitt er vel varið. Oft reynist okkur þó erfitt þegar við byrjum í ástarsambandi að átta okkur á því hvort viðkomandi sé hæfur til að byggja upp tilfinninga samband og muni ekki svíkja okkur og særa, ef við hleypum honum eða henni inn fyrir skelina?

Það má segja að með því að elska tökum við áhættu. Sumir verða “ástfangnir” af annarri manneskju á mjög svo hæpnum forsendum og skilja svo ekkert í því þegar sambandið gengur ekki upp en vert er að muna að það að elska einhvern er ekki nóg til að samband gangi upp. Til þess að samband gangi upp þurfa báðir aðilar að vita hvers þeir eru að leita að og hvort hugsanlegur maki sé hæfur til að byggja upp nærandi samband.

Ein algengasta orsök þess að ástarsambönd ganga ekki upp er sú að of fljótt er af stað farið, þ.e. áður en næg viðkynning hefur átt sér stað til að geta lagt dóm á hvort hann eða hún er sá “rétti” eða sú “rétta”. Í raun og veru þurfum við að kynnast manneskjunni áður en við hefjum ástarsamband við hana, því annars er næsta víst að við færum draumsýn okkar um hinn fullkomna maka yfir á hana í þeirri von að hún muni uppfylla allar okkar þrár og óskir; en verðum svo fyrir vonbrigðum þegar það gengur ekki eftir.

Ef við kaupum okkur notaðan bíl þá reynum við að verða okkur úti um sem flestar upplýsingar um hann svo við vitum hvað við erum að kaupa. Við athugum hvort hann er mikið keyrður og hvað það hafi verið margir fyrri eigendur, hvort hann hafi farið reglulega í smurningu og hvort dekkin séu í lagi. Er handbremsan í lagi? Eru einhverjir leyndir gallar eða ryð í bílnum? Okkur finnst sjálfsagt að athuga þetta allt þegar við kaupum bíl til að minnka líkurnar á því að gera slæm kaup.

Það er kannski ekki svo vitlaust að hafa þessi bílakaup í huga þegar við kynnumst einhverjum sem okkur líst vel á. Fara sér hægt og kynnast viðkomandi almennilega. Getur viðkomandi gefið ást og deilt tilfinningum sínum? Er viðkomandi heiðarlegur? Hvernig leysir hann tilfinningaleg vandamál? Er viðkomandi með fíkn? Á hann eða hún sögu um mörg misheppnuð sambönd? Hefur hann/hún sömu drauma og þú um barneignir og fjölskyldulíf? Spilar viðkomandi höfnunarleiki í samskiptum eða er hann/hún með góða tilfinningagreind? Leysir viðkomandi úr vandamálum eða sópar hann/hún þeim undir teppið?

Allir þessir þættir skipta máli þegar kemur að ástarsamböndum. Ef þú byrjar samband við manneskju sem þú elskar, en viðkomandi langar ekki að eignast börn og á erfitt með að endurgjalda þér ást þína, þá er ákveðinn sársauki fyrir hendi í sambandinu. Þá hefurðu bundist einstaklingi sem í raun hefur ekki það sem þú ert að leita að og málið vandast þar eð þú ert búinn að tengjast honum tilfinningaböndum.  

En hér má líka spyrja: Er þetta nú ekki einum of ? Að skoða alla þessi þætti áður en við byrjum í sambandi er næsta ógjörningur. Kannski er maður á balli og hittir einhvern og ekki fer maður þá að draga upp lista og spyrja viðkomandi í miðjum dansi: Langar þig að eignast börn?  Nei, það gengur ekki, enda er ekki verið að leggja það til, heldur fyrst og fremst það að við gefum okkur tíma í viðkynningu.

Þó það sé mikilvægt að við hlustum á tilfinningar okkar, þá geta þær stundum hlaupið með okkur í gönur, þegar kemur að ástarsamböndum, og orðið þess valdandi að við endum í samböndum sem hreinlega veita okkur enga næringu. Þess vegna þurfum við að staldra við og athuga hvort hrifningin stafi af því að viðkomandi manneskja er opin og heiðarleg eða bara fyndin, sæt og á auðvelt með að daðra.

Nú er það líka svo að margir eiga erfitt með nánd í ástarsamböndum og laðast jafnvel að þeim sem geta engan veginn verið til staðar fyrir þá tilfinningalega. Hér vandast oft málið, þegar viðkomandi skynjar ekki muninn á ástarsamböndum annars vegar og/eða “sársaukasamböndum” hins vegar, en það eru sambönd þar sem mikill sársauki blandast saman við svokallaðar ástartilfinningar. Þannig sambönd einkennast af því að annar aðilinn eða báðir geta ekki þegið ást og/eða gefið, sem síðan vekur upp tilfinningar af höfnun, öryggisleysi og vanmáttarkennd.

Ef við höfum tilhneigingu til að sækja í sambönd sem aldrei ganga upp er ljóst að við þurfum að leita til góðs fagaðila til að rýna í sálarlífið. Það geta verið margar ástæður fyrir því að við verðum alltaf hrifin af einstaklingum sem skapa okkur meiri sársauka en hamingju, en ef við förum okkur hægt og kynnumst viðkomandi almennilega stöndum við betur að vígi til að dæmið gangi upp.

Páll Einarsson
Psychotherapist MSc