ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Geðlyf & Samtalsmeðferð

Það eru gömul sannindi að ekki sjá allir hlutina í sama ljósi og er þá sama hvar fæti er niður stigið. Ávallt hefur okkur mennina greint á um allt sem við kemur mannlegu eðli og höfum við helst þurft að þreifa á því til að geta komist að sömu niðurstöðu. Nú er það svo að því miður er ekki allt sem á sér stað í lífi okkar áþreifanlegt og er næsta víst að flest okkar verja stórum hluta ævi okkar í þeim heimi sem er ekki áþreifanlegur. Það er okkar innri heimur eða heimur skynjana, tilfinninga, hugsana og upplifana sem oft er erfitt að komast að samkomulagi um hvernig beri að skilgreina.

Á síðustu öld varð mikil bylting í skilningi manna á manneskjunni, á því hvernig hún mótast og hverju hún þurfi á að halda til að geta tekið þátt í lífinu af fullum þrótti og lífsgleði. Það sem flestir eru núorðið sammála um er að til að geta vaxið sem heilbrigðast úr grasi þurfum við ekki aðeins góða veraldlega aðhlynningu, heldur fjölskyldu og umhverfi sem hlúir að okkur tilfinningalega, andlega og líkamlega. Umhverfi þar sem við finnum að við erum velkomin, erum samþykkt , elskuð og fáum að elska.  Þegar misbrestur er á að þessir þættir séu til staðar í uppeldinu þá er hætt við að einstaklingurinn nái ekki fullum þroska og taugaveiklun (neurosis) setjist að og oft alvarleg tilfelli geðveilu (psychosis). Í gegnum tíðina hefur stað mikill styr um það hvernig beri að skoða þessar upplifun á sjálfum okkur og hvernig beri að hjálpa þeim einstaklingum sem eru í vanlíðan og eru ekki í stakk búnir til að lifa í sátt við sitt líf.


Það sem fólki hefur staðið til boða, sem hefur átt við erfiðleika að stríða eins og þunglyndi, kvíða, lágt sjálfsmat og almenna vanlíðan, er annars vegar geðlyf og hins vegar margs konar samtalsmeðferðir og sjálfshjálparhópar. Ævinlega hefur staðið nokkur styr milli þeirra sem vilja lækna fólk með geðlyfjum og þeirra sem hafa boðið fólki upp á að leysa úr vandanum með því að kynnast sjálfu sér og tilfinningum sínum.  Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að fólk sem á við tilfinningalega erfiðleika að etja skortir oft boðefni í heilanum.  Þetta hefur verið reynt að laga með geðlyfjum sem koma boðefnabúskapnum í samt lag og hafa lyfin oftast létt á þunglyndinu þannig að viðkomandi fari að líða betur á frekar skjótan hátt.


Fyrir nokkrum áratugum voru geðlyf einungis gefin fólki með krónískt þunglyndi og mjög alvarlega geðsjúkdóma og voru aukaverkanir þeirra oft mjög miklar. Með tilkomu nýrra lyfja sem hafa mun minni aukaverkanir hefur það færst í vöxt að fólki sem líður illa séu gefin þunglyndislyf. Þunglyndislyf eins og Fontex (Prozac) og seroxat geta vissulega fengið fólki til að líða betur og hafa hjálpað mörgum sem voru illa á sig komnir. Minna hefur farið fyrir þeim skoðunum í þjóðfélaginu að undanförnu að skoða beri þunglyndi, kvíða og almenna vanlíðan sem merki um að viðkomandi þurfi að staldra við og skyggnast inn í sjálfan sig og finna rót vandans.

Samtalsmeðferð miðar að því að hjálpa fólki að sjá líf sitt í stærra samhengi og grafast fyrir um orsakir þeirrar vanlíðunar sem hrjáir það. Aldrei hafa manninum staðið til boða eins margar aðferðir til að losa um vanlíðan sína og þunglyndi eins og í dag. Þær skipta tugum ef ekki hundruðum; allt frá sálgreiningu og dáleiðslu til margs konar samtalsmeðferða og sjálfshjálparhópa. Þó þær séu ólíkar í eðli sínu þá eiga þær það allar sameiginlegt að hjálpa einstaklingnum að fá meiri innsýn í sjálfan sig og skoða rætur vandans. Þegar sest er niður og málin skoðuð með fagaðila kemur oft í ljós að viðkomandi skilur ekki tilfinningar sínar, gengur illa í tilfinningasamböndum, er virkur í einhverri fíkn eða er mjög sjálfsgagnrýninn, sem er oftast uppskrift að þunglyndi og vanlíðan. Góð samtalsmeðferð skilar einstaklingnum mun hæfari til að lifa lífi sínu en áður var, samhliða sem hann skilur sitt innra líf mun betur og öðlast meira val um það hvernig honum líður. Ekki er óalgengt í dag að beitt sé bæði lyfjameðferð og samtalsmeðferð samhliða og hefur árangurinn af því reynst góður.


Segja má að Sigmund Freud (1856-1939) hafi manna fyrstur komið með kenningar af hinu innra lífi mannsins sem voru nothæfar til að losa um vanlíðan og jafnframt gáfu manneskjunni mun meiri innsýn í sinn innri heim en áður.  Útkoman var einstaklingur sem hafði greiðari aðgang að sjálfum sér og var hæfari til að lifa því lífi sem hann helst vildi, jafnframt sem hann stóð fastari fótum í tilverunni. Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um hið freudíska módel og beitingu þess í meðferð á fólki og í dag skipta aðferðirnar tugum ef ekki hundruðum, þar sem öllu ægir saman.


Í dag er þó hægt að skipta þessum aðferðum gróflega upp í þrjá aðal flokka. Sálgreining með þá Freud og Jung innanborðs væri þá einn flokkurinn. Atferlisnálgun oft kennd við Watson og Skinner væri annar flokkur og sá þriðji væri síðan mannúðar nálgun með þá Abraham Maslow, Rollo May og Carl Rogers sem aðalhugmyndasmiði.


Þessar þrjár stefnur sjá manninn í misjöfnu ljósi og greinir oft mjög á um hvernig rétt sé að beita samtalsmeðferð svo hún skili árangri til lengri tíma. Það þykir þó sýnt að þær reynast allar hjálplegar hver á sinn hátt og í dag hafa margir fagaðilar góða innsýn í þær allar og nota þær jöfnum höndum.


Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfræðingur