ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Tilgangur lífsins

Bæði heimspekin sem og trúarbrögðin hafa í gegnum aldirnar sett fram kenningar og tilgátur um tilgang lífsins og veru okkar hér á jörð. Þar sýnist sitt hverjum, en fáar spurningar eru eins áleitnar fyrir okkur mennina eins og sú sem snýr að tilgangi lífsins. Þegar við erum ung veltum við henni ekki mikið fyrir okkur og það er oft ekki fyrr en við verðum eldri að hún verður áleitin og við förum að leita að svari.

Danskur heimspekingur að nafni Sören Kierkegaard (1813-1855) lét til sín taka í þessum efnum og skrifaði  bók um angistina sem hrjáir manninn og óttann við dauðann sem bíður okkar allra. Seinna fylgdu fleiri heimspekingar í kölfarið sem gerðu angistina að aðalkjarna sinnar stefnu. Þessi heimspekistefna varð fljótt kennd við tilvistarstefnu (existentialisma), en grundvallaratriði hennar er að innra með okkur séum við að kljást meðvitað eða ómeðvitað við óttann við dauðan og tilgangsleysi lífsins, sem birtist síðan dags daglega sem kvíði, angist og einmanaleiki.  

Þessi sýn hefur haft mikil áhrif á meðferðarfræðina og  innan sálmeðferðarinnar er meðferðarstefna sem kennir sig við tilvistarstefnuna (existential psychotherapy) og hafa fylgismenn hennar verið virkir við að koma skoðunum sínum á framfæri. Einn af talsmönnum hennar er geðlæknir að nafni Irvin  D. Yalom sem hefur skrifað bæði skáldsögur og bækur um sálræna meðferð. Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar þessi fræði þá eru bækur hans góð uppspretta fróðleiks hvað þau snertir.

Samkvæmt kenningum tilvistarmeðferðarinnar þá eru það fjögur atriði sem við mannfólkið þurfum að horfast í augu við í viðleitni okkar til að lifa eins innihaldsríku lífi og hægt er. Þau eru:   

•    Dauðinn bíður okkar allra.
•    Við erum ein og einsemdin er staðreynd.
•    Við erum frjáls til að verja lífi okkar að vild.
•    Það er enginn augljós tilgangur með lífinu.

Ekki er óalgengt að fólk verði þunglynt sem fer að skoða þessa mál enda hefur líka þannig farið fyrir mörgum heimspekingnum sem sökkt hefur sér ofan í þau. Samt sem áður eru hér á ferðinni áleitnar vangaveltur sem margir glíma við. Hvernig fáum við tilgang í lífið og hvernig getum við búið svo um hnútana þegar stóra kallið kemur að við getum litið til baka og kvatt í sátt við unnið lífsverk? Margir vilja ekki af þessu vita og loka á þessar áleitnu spurningar um lífið og tilveruna. Þeir verða ekki sóttir til saka, þar sem oft er fátt um svör og þau svör sem eru til staðar kalla á trú sem margir hafa ekki.

Að horfast í augu við sjálfan sig, lífið, angistina og dauðan er tilgangur tilvistarmeðferðarinnar. Samhliða því að lifa í djúpum og nærandi tengslum við samborgara sína sem gefur lífinu einatt fyllingu og gildi. Þetta er þó ekki auðvelt mál og kallar á að við séum tilfinningalega opin og reiðubúin að horfast í augu við ótta okkar og einsemd. Tilgangur samtalsmeðferðarinnar er einmitt að opna fyrir þessar tilfinningar og hjálpa til í viðleitni okkar að lifa innihaldsríku lífi.

Samt er nú svo að margir nýta sér samtalsmeðferðina einungis til hjálpar við að komast yfir erfiðan hjalla í lífinu, án þess að taka þessar stóru spurningar til meðferðar. Svo eru þeir til sem ekki verða í rónni fyrr en þeir hafa skoðað þessi mál og gert þau upp, og hefur hver sinn háttinn þar á. Fyrir margan hefur ástin verið tilgangur lífsins. Það að elska og vera elskaður og finna að maður skiptir máli gefur lífinu gildi og vinnur bug á einsemd og ótta sem hrjáir okkur. Kannski er það svo að ástin er stóri plásturinn á sárið sem heitir lífið.

Austræn andleg fræði hafa látið þessi mál mikið til sín taka eins og sést í þessari littlu sögu:

Nemandinn var búinn að velta fyrir sér tilgangi lífsins og kominn í þrot, er hann ákvað að fara til uppljómaðs kennara síns og leita svara við þeim spurningum sem á hann herjuðu.  „Meistari“, sagði neminn; „Hvernig ber mér að lifa lífi mínu svo því verði sem best varið?“  Meistarinn svaraði:  „Með því að búa þig undir dauðann.“ „Já, en“,  svaraði neminn, „Hvernig á ég að búa mig undir dauðann?“ „Með því að lifa lífinu lifandi“, svaraði meistarinn.

Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfræðingur