ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Tilfinningagreind

Þegar einstaklingur ákveður að koma í viðtöl þá er það oftast vegna þess að hann nær ekki að vinna úr þeim innri vanda sem hann er að fást við. Fólk hefur mismikinn hæfileika til að upplifa tilfinningar sínar, skilja þær og nota þær til leiðsagnar í lífinu. Það er list sem mörgum reynist erfið og kallar þá oft á að farið sé í viðtalsmeðferð til að auka færnina. Að skilja tilfinningar sínar er hæfileiki sem á seinni árum hefur verið nefndur tilfinningagreind. Að vera með góða tilfinningagreind er á margann hátt mun mikilvægara heldur en hafa góða greindarvísitölu. Tilfinningagreind hefur með það að gera hvernig okkur vegnar í lífinu. Hún segir til um hæfileika okkar til að höndla “hamingjuna” og í raun að dvelja í sátt við sjálf okkur, umhverfi okkar og takast á við tilfinningalega erfiðleika.

Tilfinningagreind er oft skipt niður í 4 flokka en þeir eru:

1. Hæfileikinn til skilgreina tilfinningar og tjá þær.
   • Hæfileikinn til að skilja tilfinningar sem byrtast í andliti, í raddblæ og líkamstjáningu.
   • Hæfileikinn til að vera meðvitaður um sjálfann sig og tilfinningar sínar um leið og þær eru upplifaðar.
   • Hæfileikinn til að skilgreina tilfinningar í sjálfum sér sem og öðrum og geta talað um þær við aðra á skýran hátt.

2.
Hæfileikinn til að láta tilfinningarnar leiðbeina hugsununni.
   • Hæfileikinn til að nota tilfinningarnar til að skilgreina vandamál, finna lausnir og til ákvarðanatöku.
   • Hæfileikinn til að láta tilfinningarnar leiðbeina sér um það hvað skiptir máli að hugsa um.

3.
Hæfileikinn til að skilja tilfinningar sínar
   • Hæfileikinn til að leysa úr tilfinninalegum vandamálum
   • Hæfileikinn til að skilja hvernig tilfinningar, hugsun og atferli tengjast saman. Til dæmis að skilja orsök og afleiðingu hugsana og tilfinninga á hvort annað og hvernig tilfinningar leiða til gjörða og athafna.
   • Hæfileikinn til að skilja mikilvægi tilfinninga í hættuástandi

4. Hæfileikinn til hlúa að tilfinningum sínum
   • Hæfileikinn til að taka ábyrgð á tilfinningum sínum og vellíðan sinni.
   • Hæfileikinn til að takast á við erfiðar tilfinningar, læra af þeim og snúa þeim upp í tækifæri til þroska.
   • Hæfileikinn til að hjálpa öðrum að koma auga á tilfinningar sínar og kenna öðrum tilfinningagreind.

Í tilfinningamiðaðri viðtalsmeðferð (Emotional Focused Therapy) er skjólstæðingnum hjálpað að skilja tilfinningar sínar og innri upplifanir. Það er mjög misjafnt hversu vel er hlúða að tilfinningagreind okkar þegar við erum ung. Á sumum heimilum er ekkert talað um tilfinningar og jafnvel er forðast að tjá þær á nokkurn hátt. Áföll sem við verðum fyrir í æsku og náum ekki að vinna úr gerir það líka oft að verkum að við förum að óttast tilfinningar okkar eða náum ekki að losna við erfiðar upplifanir sem sækja á okkur. Vímuefnafíkn sem og aðrar fíknir setjast einungis að þar sem tilfinningagreind hefur ekki náð að þroskast með góðu móti. Fíknir almennt séð eru áráttukennd viðbrögð við erfiðum upplifunum sem ekki finnst lausn á, eins og skömm, vanmáttarkennd, óöryggi, kvíða og þunglyndi en fíknir framkalla svokallað leiðsluástand sem hjálpar til við að loka á erfiðar tilfinningar.

Sá sem ekki hefur góða tilfinningagreind reynir að fást við tilfinningar sínar með því að bæla þær. Það er gert á ýmsan hátt eins og með því að afneita þeim, loka á þær, eða halda sér uppteknum. Í tilfinningamiðaðri meðferð er skjólstæðingnum hjálpað að sjá hvernig varnarkerfið er notað til að loka á erfiðar tilfinningar og hvernig hægt er að vinna úr þessum erfiðu tilfinningum.

Tilfinningagreind er sem betur fer hægt að þroska og er tilfinningamiðuð viðtalsmeðferð mjög góður kostur í þeirri viðleitni. Tilfinningamiðuð meðferð þroskar hæfileikan til að vera í samböndum, skilja tilfinningar, tjá tilfinningar, vinna úr erfiðum tilfinningum um leið og hlúð er að sjálfsmatinu og það styrkt.

Páll Einarsson MSc
Sálmeðferðarfræðingur