ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Að flysja laukinn

Tilgangur viðtalsmeðferðar er í stórum dráttum sá að auka meðvitund þína um sjálfan þig og þitt innra líf. Því meir sem þú ert meðvitaður um sjálfan þig, þeim mun betur ertu í stakk búinn til að skapa þér líf sem er innihalds- og tilgangsríkt um leið og þú verður hæfari til að taka ákvarðanir sem leiða til velsældar í lífi þínu almennt.

Fullkomin meðvitund um allt þitt sálarlíf er kannski óhugsandi mannlega séð, en tilgangur viðtalsmeðferðar er heldur ekki sá, heldur að skapa ferli í meðferðinni þar sem skilningur á sjálfum þér fer vaxandi. Þetta er eins og að flysja lauk. Við erum alltaf á leiðinni að kjarnanum og við flysjum eitt lag af í einu. Allir þeir sem koma í meðferð hafa ákveðinn skilning á sjálfum sér þegar þeir mæta í sinn fyrsta tíma. Í meðferðinni leitumst við eftir að efla þann skilning með því að skoða hvernig þér gengur að skilja tilfinningar þínar og hugsanir út frá fortíð þinni sem og nútíð.

Hægt er að skipta okkar innri heimi í þrennt þ.e. skynjun, tilfinningar og hugsanir. Sálmeðferð gengur útá meðal annars að tengja saman hugsun, skynjun og tilfinningu, sem gefur þér dýpri innsýn í sjálfan þig og það sem þú ert að kljást við.

(Í öllum dæmum sem eru birt hér á eftir hefur nöfnum verið breytt og samþykki fengið fyrir birtingu þeirra).

Dæmi:
Jón situr á tónleikum og finnur fyrir gömlum pirringi. Hann þekkir þennan pirring vel, en í gegnum tíðina hefur hann aldrei leyft sér að hlusta almennilega á hann. Vikuna áður barst þessi pirringur í tal hjá okkur og við ákváðum að næst þegar þetta gerðist ætlaði hann að reyna að hlusta á þennan pirring og skilja af hverju hann léti á sér kræla. Þar sem hann situr á tónleikunum finnur hann fyrir herpingi í brjóstinu og stirðleika í öllum líkamanum. Innra með sér spyr hann pirringinn hvað sé að. Hann hefur varla sleppt orðinu þegar rödd heyrist segja: „mig langar ekki að sitja hérna lengur og hlusta á þessa tónlist!“ Jón ákveður í þetta sinn að standa upp og fara. Jón fékk þarna innsýn í það hvernig hann hefur alltaf gert þá kröfu á sjálfan sig að klára alla skapaða hluti sem hann tekur sér fyrir hendur, sama hvernig honum líður með það. Eitthvað sem virkaði vel fyrir hann þegar hann var ungur, en í dag vill Jón eiga meira val.

Annað dæmi:
Í hvert skipti sem eitthvað sorglegt átti sér stað í lífi Jóns upplifði hann aldrei sorg, en varð aftur á móti var við að maginn herptist saman og röddin breyttist. Eins og hún yrði hálf lífvana. Í meðferðinni skoðuðum við þetta mál saman og ég benti honum á að slaka á magavöðvunum og anda dýpra. Í kjölfarið fór Jón að finna fyrir ákveðnum ótta sem síðan leiddi til þess að hann fann fyrir sorginni sem hann hafði alltaf haldið aftur af með því að herpa magann og anda grunnt. Þetta hafði hann gert frá því að hann var 12 ára gamall, en þá hafði hann missti móður sína og þurfti að harka af sér, þar sem hann tók við ábyrgðinni á heimilinu.

Heildræn nálgun

Verið getur að þú leitir til mín þar sem þú ert óánægð/ur með hvernig þú lifir lífi þínu. Kannski borðar þú mat sem er mjög fitandi og óhollur eða þér finnst erfitt að koma þér af stað og fara út að ganga eða í ræktina. Ef til vill er mikið stress í gangi og langvarandi þreyta, höfuðverkur, meltingartruflanir eða bakverkir, svo fátt eitt sé nefnt. Fíknir taka líka sinn toll, hvort heldur sem það eru reykingar, drykkja, spilamennska eða eitthvað annað.

Þegar þú ert kominn af stað í meðferðinni þá fer kannski að vakna löngun hjá þér að laga lífstíl þinn og gera hann heilbrigðari á allan hátt. Mikilvægt er þó að þú vitir að ég mun ekki gera neina kröfu til þess að þú breytir honum. Þetta er þitt líf og þú ræður því sjálfur. Ef sú staða kemur upp aftur á móti að þú vilt fara að gera eitthvað í þessum málum þá mun ég aðstoða þig við að gera raunhæfar breytingar til hins betra.

Dæmi:
Guðrún var kominn í meðferð þar sem hún var mjög óánægð með sjálfa sig og hvað hún var þung. Hún borðaði mikið af mjög óhollum mat, en í gegnum tíðina, þegar hún hafði náð að grennast, fór hún að finna fyrir öryggisleysi sem olli því að hún leiddist aftur út í ofát. Í meðferðinni skoðuðum við hvernig hún notaði mat til að takast á við einmanaleika og sorg sem ennþá voru til staðar frá ýmsum tímabilum í lífi hennar. Með því að skoða hvað var á bakvið ofátið öðlaðist hún styrk til að horfast í augu við tilfinningar sínar og upplifa þær án þess að deyfa þær. Við settum saman áætlun fyrir hana sem byggði á reglulegum gönguferðum og því að sniðganga mat sem vakti upp fíkn. Þegar á leið í meðferðinni benti ég henni á næringafræðing og jógastöð. Hún fór að sækja jóga reglulega, en ákvað svo að það ætti ekki við sig og fór í staðinn í líkamsrækt sem hún fann sig mun betur í. Þessi heildræna nálgun virkaði mjög vel fyrir Guðrúnu og hún náði sáttum við tilfinningar sínar sem og líkama sinn.

Athugaðu hvort það eru einhver atriði sem snerta heilsu þína og sem þig myndi langa að vinna með í meðferðinni. Skoðaðu hvernig þér líður með lífstíl þinn og hvort hann á einhver þátt í vanlíðan þinni.

Hér og nú

Megnið af því sem við skoðum í meðferðinni tilheyrir því sem þú ert að upplifa og kljást við í þínu daglega lífi. Það geta t.d. verið erfiðleikar í vinnu, skilnaður, ósætti innan fjölskyldunar, vandkvæði hvað varðar að standa með sjálfum sér, dauðsföll, ýmis konar önnur áföll og margt fleira. Við tökum á málunum með því að skoða hvað þú ert að ganga í gegnum og hvernig þú tekst á við það. Kannski þarftu aðstoð við að skilja sorgarferli sem þú ert að fara í gegnum eða þú þarft hreina og klára aðstoð við að finna nýjar leiðir til að vinna þig út úr vandamálum sem hrjá þig.

Dæmi:
Sigurður átti erfitt með að standa með sjálfum sér í vinnunni og lenti oft í því að sitja uppi með verkefni sem enginn vildi taka að sér. Þetta var farið að íþyngja honum mikið og hann var farinn að kvíða fyrir að mæta í vinnuna. Við skoðuðum málið og sáum að Sigurðar átti erfitt með að segja nei við vinnuveitendur sína af ótta við að þeir yrðu reiðir út í hann. Sameiginleiga fundum við leið fyrir hann til að segja nei án þess að honum liði illa vegna þess. Hún fólst í því að skilja bón vinnuveitenda hans um að taka að sér verkefni sem að þeir væru í raun að athuga hvort hann hefði næg verkefni. Við að horfa á þetta á þennan hátt átti Sigurður auðveldara með að segja hver verkefnastaða hans væri og hann gerði sér grein fyrir að vinnuveitendur hans vildu ekki að hann tæki of mikið að sér - þeir voru aðeins að spyrja hann, ekki krefjast neins af honum eins og honum fannst alltaf.

Þú og ég

Sennilega þekktirðu mig ekki áður en þú komst til mín í fyrsta tímann, en líkur eru á að þú upplifir alls konar tilfinningar í tímunum með mér, sumar sárar, aðrar tengdar gleði og létti. Það er mikilvægt að þú leyfir þér að tala um hvernig þér líður í þessum samskiptum okkar og einnig hvort þér finnist þú njóta skilnings í meðferðinni. Oft á tíðum gerist það að gömul sambönd aftan úr barnæsku endurspeglast í þeim samskiptum sem eiga sér stað milli okkar, þar sem ýmis konar tilfinningar koma upp á yfirborðið. Þetta er oftast ómeðvitað en þó ekki alltaf.

Dæmi:
Í einum tíma sagði Jón: „Ég finn að ég er reiður út í þig, en ég veit ekki af hverju. Alveg frá því í síðasta tíma finnst mér eins og þú hafir ekki skilið hvað ég var að segja og hvernig mér leið. Samt er ég hissa á að ég skuli vera reiður yfir því, þar sem þú hefur reynst mér svo vel.“ Ég tjáði Jóni að það gæti verið rétt að ég hafi ekki skilið hann fyllilega í síðasta tíma eða áttað mig á því sem hann var að fara, en ég væri líka forvitinn um þá reiði sem kæmi upp. Þegar reiðin var skoðuð nánar kom í ljós frekar sársaukafull reynsla úr barnæsku Jóns, þar sem honum fannst aldrei neinn skilja almennilega hvernig honum leið eða bera sig eftir því að reyna að skilja hann.

Gott er að fylgjast með þeim tilfinningum sem þú hefur gagnvart mér og einnig hvort það er eitthvað sem þú forðast að tala um við mig og lýtur að okkar samskiptum. Fylgstu líka með því hvort þú ert að verja mig eða passa upp á mig með því að segja ekki eitthvað sem þér finnst að gæti sært mig.

Sambönd

Tilfinningasambönd geta verið margslungin og ekki er óalgengt að fólk komi í meðferð þar sem því hefur ekki tekist að skapa tilfinningasamband sem er bæði nærandi og gefandi. Verið getur að þú eigir erfitt með að þiggja ást frá öðrum og verðir alltaf gagnrýninn á viðkomandi þegar hann eða hún sýnir þér hlýju. Finnist þú vera að kafna. Einnig getur verið að þú farir alltaf í sambönd með einstaklingum sem eru ekki hæfir til að gefa þér ást og hlýju sem gerir það svo aftur að verkum að þú upplifir oft höfnun í sambandinu.

Dæmi:
„Ég hreinlega skil þetta ekki,“ sagði Þórður, „ ég verð alltaf hrifinn af konum sem síðan hafna mér þegar í samband er komið. Ég á að baki ein sex sambönd þar sem mér hefur verið sagt upp og ég hreinlega get ekki meir.“ Við fórum að skoða hvað það væri sem Þórður leitaði að. Niðurstaðan var ást, hlýja og umhyggja. Við skoðuðum hvað það væri sem Þórður sæi við þessar konur sem hann byrjaði með og sem seinna meir höfnuðu honum. Fljótlega kom í ljós að Þórður laðaðist í raun að konum sem voru tilfinningalega lokaðar og gáfu ekki mikið af sér. Þórður hafði alist upp hjá móður sem var frekar til baka og gaf Þórði litla ást og hlýju. Þegar hann fullorðnaðist fylgdi honum þetta ástarhungur og hann laðaðist ávallt ómeðvitað að konum sem minntu hann á móður sína. Við að koma auga á þetta munstur hjá sér fór Þórður í gegnum langt sorgarferli þar sem hann upplifði líka mikla reiði og depurð. Í lok meðferðarinnar var Þórður farinn að laðast að konum sem gátu gefið af sér hlýju og ást eins og hann hafði ávallt þráð.

Til eru þeir sem eru góðir í upphafi sambanda, en hafa lítið úthald, þar sem þeir eru einungis að sækjast eftir spennunni og tilhlökkuninni sem fylgir því að byrja í nýju sambandi. Kannski ertu einn af þeim sem á sér „draumamaka“ sem enginn stenst samanburð við. Það leiðir síðan til þess að þú ert alltaf óánægður með þann sem þú ert með. Ef til vill er vandamálið ekki sá eða sú sem þú ert með, heldur hugmyndir þínar um sambönd, og hæfileiki þinn til að vera til staðar á nærandi og gefandi hátt.

Draumar og dagdraumar

Sumir skjólstæðingar mínir tala mikið um drauma sína í meðferðinni, aðrir ekki neitt. Ef þig dreymir athyglisverða drauma þá minnstu endilega á þá, því þeir geta opnað ýmsar dyr.

Sigmund Freud, upphafsmaður sálgreiningarinnar, var fyrstur til að styðjast við drauma í meðferð hér á Vesturlöndum. Aðferð hans var að greina hin ýmsu tákn sem birtust í draumum og túlka þau. Ég leitast við að skilja drauminn í samhengi við líf þitt en gott ráð er að segja frá draumnum í nútíð til að fá betri tilfinningu fyrir honum.

Dæmi:
„Ég (Jón) er á harða hlaupum undan einhverjum sem ég sé ekki hver er. Ég þori ekki að líta við af ótta við að sjá hver það geti verið og hvað hann ætlar að gera mér. Ég finn að lappinnar á mér verða þyngri og þyngri og allt í einu get ég ekki hlaupið lengra. Þetta sem er á eftir mér er alveg að ná mér, en þá vek ég sjálfan mig og finn að ég er heltekinn af ótta og örvinglun.“ Ég lét Jón ímynda sér að hann væri það sem væri að elta hann. Með því að ímynda sér það fann Jón að það fylgdi rödd þessum ógnvaldi sem sagði: „Þú ert ekki neitt og ég mun alltaf hafa þig á valdi mínu.“ Nánari skoðun á þessum draumi í meðferðinni leiddi í ljós að þetta var mjög gagnrýninn partur af Jóni sjálfum sem gerði aldrei neitt nema að setja út á Jón í daglegu lífi hans og gera hann öryggislausan. Með þessum skilningi fór Jón að skoða hvernig hann talaði við sjálfan sig og sjá hvernig líf hans var undirlagt af ótta við að mistakast.

Ég lít yfirleitt svo á að draumurinn í heild tákni sálarlíf þitt og þeir hlutir sem eru í draumnum (t.d. bíll sem mig dreymdi reglulega og vantaði vélina í) tákni hluta af sálarlífi þínu, bæði meðvitaða og ómeðvitaða. Í draumnum hans Jóns var t.d. það sem elti hann hluti af honum sjálfum, hluti sem ávallt réðst á hann þegar mest lá við. Draumar hjálpa þér til að verða meðvitaðri um það sem er að gerast innra með þér; þetta sem jafnan er ómeðvitað dags daglega.

Annað dæmi:
„Ég (Ásta) horfi eftir sjóndeildarhringnum og sé stórt svart ský myndast yfir fjalli. Ég heyri miklar drunur og þar sem ég stend tek ég eftir því að það er farið að gjósa af miklum krafti úr fjallinu og hraunið ryðst fram og rennur niður hlíðarnar. Ég verð óttaslegin og reyni að forða mér á harðahlaupum.“ Þegar Ásta fór að skoða drauminn nánar með mér skynjaði hún mikla reiði innra með sér, en um leið var hún líka hrædd við þessa reiði, þar sem henni fannst að ef hún leyfði sér að vera reið þá mundi fólk yfirgefa hana. Eldfjallið táknaði reiði hennar og óttinn við reiðina birtist sem ótti við eldfjallið í draumnum.

Gagnlegt er að kanna hvort einhverjir ákveðnir draumar hafa fylgt þér í gegnum lífið. Hvaða þætti þeir tákna innra með þér og hvaða meiningu þeir hafa. Eru þeir t.d. óttadraumar eða reiðidraumar eða snúast þeir um einsemd o.s.frv.?

Dagdraumar (fantasíur) gefa oft mikla innsýn í sálarlíf okkar og sýna fram á þrár okkar og ótta. Til dæmis getur verið athyglisvert að skoða þær hugmyndir sem ýmsir hafa þegar þeir eru leita sér að maka. Hugmyndir og draumar um væntanlegan maka gefa oft til kynna hvort viðkomandi er raunsær eða ekki. Dagdraumar taka á sig margs konar myndir og úrvinnsla þeirra í meðferðinni er þar af leiðandi breytileg.

Dæmi:
Ásta finnur til kvíða við tilhugsunina um samband við karlmenn. Hún hefur kynnst nýjum manni, en finnur til óöryggis. Ég bið hana að loka augunum og ímynda sér að hún sé einhvers staðar á gangi með þessum nýja manni eftir sex mánaða samband. „Ég sé okkur ganga eftir götu,“ segir Ásta. „Maðurinn gengur í veg fyrir mig og ýtir mér út af gangstéttinni. Ég verð mjög reið, en læt eins og ekkert sé og brosi bara.“ Ég skoða síðan með henni hvernig hún lokar á reiði sína og hvernig hún getur staðið með sjálfri sér í samböndum við karlmenn. Ótti hennar snýst um að vera varnarlaus og lenda í aðstæðum þar sem hún er niðurlægð.

Innri ágreiningur

Góð leið til að skilja innri ágreining er að hugsa sér að tveir partar af þér séu að takast á innra með þér. Oft birtist þetta í því að við erum óánægð með okkur, þ.e. annar parturinn setur út á hinn á mjög svo gagnrýninn hátt. Þetta birtist oft í því að við segjum við sjálf okkur að við „ættum“ að gera eitthvað eða „hefðum átt“ að gera eitthvað; eða hrein og klár skilaboð um að við séum ekki nógu góð, sæt, fín eða gáfuð, svo fáein dæmi séu nefnd.

Dæmi:
Ásta kom í viðtalstímann og settist niður án þess að líta upp. Ég sá að hún var að berjast við að halda andlitinu og átti erfitt með að horfa í augun á mér, sem oft er merki um sjálfshöfnun. Ég bað Ástu um að tala um það sem væri að íþyngja henni og fljótlega kom í ljós að hún upplifði mikla vanlíðan. Ég bað hana að prófa að setja þann part sem væri að hafna henni í stól og síðan sjálfan sig eða þann part sem hún finndi til með í annan stól og láta þá tala saman. Fljótlega kom í ljós að hún var að kljást við mjög svo gagnrýninn part sem hún kunni engin ráð til að sporna við og sem yfirtók allt hennar sálarlíf. Við nánari skoðun kom í ljós að uppistaðan í þessum parti voru unglingar sem höfðu lagt hana í einelti þegar hún var yngri sem og skilaboð frá umheiminum um það hvað væri fallegt og hvernig hún þyrfti að líta út til að vera elskuð og eftirsótt. Við að sjá þetta skýrt leyfði Ásta sér í fyrsta skipti að gangast við reiði sinni og sársauka út í það fólk sem hafði lagt hana í einelti og hún ákvað einnig að tískublöðin skildu ekki fá að ráða því hvernig henni liði. Hægt og rólega létti þessari sjálfsgagnrýni og Ástu fór að líða mun betur með sjálfri sér.

Í meðferðinni skoðum við hvernig þú lítur á sjálfan þig og hvort þú ert að kljást við sjálfsímynd sem byggist á gömlum skilaboðum frá fólki og samfélaginu í heild sinni. Gagnlegt er að taka fyrir þær kröfur sem þú gerir til sjálfs þín sem og þær hugmyndir sem þú hefur um hvernig þú ættir að líta út. Neikvæðar innri raddir eru oft eins og gömul rispuð grammófónsplata sem alltaf hljómar eins og heldur þér föstum í sama farinu.

Tjáning

Viðtalsmeðferð hefur oft verið kölluð „hin talandi lækning“, þar sem meðferðarformið gengur út á það að tala og tjá sig við þerapistann. Tjáning fer þó ekki bara fram með orðunum sem við notum, heldur hafa þær áherslur sem við notum í tjáningunni einnig mikið að segja. Einnig tjáum við okkur oft ómeðvitað með líkamstöðu okkar, ýmsum hreyfingum og hvernig við berum okkur almennt .

Dæmi:
Þegar Ásta talaði um misnotkunina sem hún varð fyrir sem barn þá fann hún hvernig hún dofnaði upp innra með sér og varð mjög þreytt. Í hvert skipti sem hún talaði um misnotkunina fór hún að slá með vinstri hendinni frekar létt í stólinn sem hún sat í. Ég veitti þessu athygli og spurði Ástu hvort hún væri til í að slá aðeins fastar með hendinni. Hún gerði það og um leið fann hún fyrir mikilli reiði gagnvart þeim sem hafði misnotað hana og sagði: „Mig langar hreinlega að berja hann!“

Gott er að fylgjast með hvort það er mikið af óbeinum skilaboðum sem fylgja tjáningu þinni. Fylgstu með því þegar þú ferð í fýlu eða verður reiður hvernig þú bregst við og hvort þú refsar þeim sem þú ert reiður við með því að hafna þeim eða hvort þú talar beint út.

Öndun

Þegar mikið tilfinningalegt álag á sér stað verður öndunin hjá sumu fólki frekar grunn og stutt. Ástæðan er sú að við geymum tilfinningar okkar yfirleitt í maganum og brjóstinu og þegar þær eru sterkar þá reyna sumir að komast hjá því að finna fyrir þeim með því að anda frekar grunnt. Ég til dæmis andaði aldrei ofaní maga sem unglingur og var þar af leiðandi í litlu sambandi við tilfinningar mínar. Maginn var alltaf herptur og ég dvaldi mikið uppi í höfðinu á mér. Slökun og öndun hjálpa alltaf til við að tengjast tilfinningum okkar, þó oft þurfi meira til þegar mikil bæling hefur átt sér stað í mörg ár.

Dæmi:
Sigrún hafði verið með verk fyrir brjóstinu um nokkurra ára skeið áður en hún kom í meðferð. Hún hafði farið til læknis og prófað nudd og jóga, en verkurinn hvarf aldrei. Ég tók eftir að öndunin var frekar grunn og bað hana að prófa að fylla lungun og magann af lofti nokkrum sinnum. Hún fann meira fyrir verknum fyrir vikið. Ég bað hana að prófa að gefa verknum rödd. Fyrst fannst henni það hálf asnalegt en prófaði samt: „mig verkjar svo mikið, ég er alein, þetta er svo sárt.“ Um leið brutust fram minningar um erfiðan skilnað sem hún fór í gegnum nokkrum árum áður og sem hún tókst á við með því að hella sér út í vinnu. Hið ókláraða sorgarferli sem fylgdi skilnaðinum sat fast í brjóstinu á henni.

Vertu opinn fyrir því í meðferðinni að skoða hvort tilfinningar þínar eru bældar og birtast kannski sem verkur eða doði.

Barnæskan

Stundum getur verið nauðsynlegt að skoða minningar og atburði sem áttu sér stað þegar þú varst yngri, þar sem það hjálpar oft til við að fá innsýn í erfið munstur sem þú ert að kljást við í nútíðinni.

Dæmi:
Ólafur var komin í meðferð þar sem hann átti í erfiðleikum við mynda sambönd við konur. Einu konurnar sem hann varð hrifin af voru konur sem voru giftar eða í samböndum. Í gegnum tíðina hafði þetta munstur skapað mikla erfiðleika í lífi hans og splundrað mörgum hjónaböndum. Ég bað Ólaf að skoða með mér hvenær hann fór fyrst að berjast um athygli annarar konu. Eftir að hafa skoðað öll sín sambönd við konur þá mundi hann eftir því að sem unglingur varð hann einungis hrifinn af stelpum í skólanum sem voru á föstu. Eftir nokkra tíma kom skýrari mynd á þetta munstur, þegar Ólafur mundi eftir því að hafa alltaf verið að slást við bróður sinn um athygli móður sinnar, en hún var þunglynd og hafði frekar lítið að gefa þeim bræðrum.

Yfirleitt er ekki verið að leita að einhverri einni ákvörðun í fortíðinni (þó stundum geti það átt við), heldur því hvernig komið var til móts við þarfir þínar og þrár í uppeldinu og hvernig þær birtast í dag.

Í barnæsku búum við okkur til það handrit sem við lifum síðan lífi okkar eftir ómeðvitað. Í meðferðinni leitumst við eftir að gera handritið sýnilegt svo hægt sé að átta sig á því og jafnvel að skipta því út, ef það þjónar ekki neinum tilgangi lengur.

Dæmi:
Ásta var að kljást við það hvað henni fannst erfitt að vera reið og að standa með sjálfri sér. Hún var mjög viðkvæm fyrir höfnun og gerði allt sem hún gat til að verða ekki fyrir henni. Hún lék alltaf góðu stelpuna, jafnvel þó verið væri að hæða hana eða setja út á hana. Hún gat ekki staðið með sjálfri sér og upplifði oft niðurlægingu. Í meðferðinni skoðaði ég með Ástu fyrstu atvikin sem hún mundi eftir að hafa látið vaða yfir sig. Í minningunni hafði hún alltaf hagað sér svona í samskiptum við aðra. Við nánari athugun kom í ljós að faðir hennar, sem var virkur alki, hafði verið mjög ráðríkur á heimilinu og stjórnað öllu sem þar fór fram á einræðislegan hátt. Besta leiðin sem Ásta fann sem barn var að bæla niður tilfinningar sínar og láta lítið fyrir sér fara - og passa að pabbi yrði ekki reiður. Ef pabbi varð reiður þýddi það að hann sagði eitthvað meiðandi við Ástu sem fannst þá alltaf að hún væri ekki nógu góð dóttir og það kallaði fram sterka höfnunartilfinningu. Hennar handrit var: „Ef ég segi það sem mér finnst þá endar það með höfnunartilfinningu og vanlíðan.“

Eins og sést á sögu Ástu þá endurtekur hún gamla munstrið sitt frá því að hún var lítil. Það er gagnlegt að skoða hvort einhver viðlíka munstur endurtaka sig í þínu lífi. Aðrar útgáfur á handritum sem fólk lifir lífi sínu eftir eru: Ég á alltaf að láta aðra hafa forgang. Það er slæmt að elska sjálfan sig. Ekki láta ljós þitt skína því það á ekki við.
Það er allt öðrum að kenna. Það er göfugt að vera fátækur o.s.frv. Oftast hljóma þessar setningar ekki meðvitað í huga fólks, en þær birtast einatt í gjörðum þess sem og viðhorfum til sjálfs sín og lífsins.

Heimavinna

Stundum læt ég þig hafa heimaverkefni. Tilgangur heimavinnunnar er að styrkja það ferli sem er þegar til staðar í meðferðinni og hjálpa þér að auka vitund þína um sjálfan þig og það sem þú ert að fást við. Það sem kemur fram í heimaverkefnunum skoðum við síðan sameiginlega.

Dæmi:
Sigrún vildi meina að hún væri haldin kaupæði þar sem hún var alltaf að kaupa sér hluti sem hana langaði eiginlega ekkert í. Ég fékk henni heimaverkefni sem snérist um að fylgjast með því hvað gerðist innra með henni þegar hún fór í búðir. Þegar hún kom næst hafði hún farið að versla í millitíðinni. Það var tvennt sem hún hafði tekið eftir. Í fyrsta lagi þá fannst henni erfitt að segja nei við afgreiðslumanninn og í öðru lagi þá sá hún fyrir sér að henni mundi líða vel ef hún keypti sér það sem hana langaði að kaupa. Við tókum þetta fyrir í meðferðinni og það leiddi til þess að hún áttaði sig mun betur á því sem hún var að kljást við.

Frá kyrrstöðu til hreyfingar

Engir tveir viðtalstímar eru eins í sálrænni meðferð og í raun geta tímarnir verið mjög ólíkir. Allt frá því að þú gerir stórar uppgvötanir til þess að þér finnst frekar lítið vera að gerast, þ.e. engir draumar eða engar sterkar tilfinningar eða lítill fókus. Þetta getur verið erfitt tímabil og oft hætta margir í meðferð þegar svona stendur á. Það er þó áríðandi að staldra aðeins við, því það getur verið að þú sért komin að næsta lagi í flysjun lauksins. Þegar þér finnst þú vera fastur í meðferðinni þá er mjög gott að skoða það með mér og vera opinskár. Ég vildi að ég gæti alltaf sagt eitthvað eða gert eitthvað sem hjálpaði þér út úr þessu ástandi, en stundum er það ekki svo einfalt. Stundum er eins og þetta ástand sé nauðsynlegt um ákveðinn tíma á meðan ýmsar hliðar þess eru kannaðar.

Ábyrgð – Tilgangur - Ákvörðun

Þetta eru stór orð innan viðtalsmeðferðarinnar. Í raun snúa þau öll að þér og því sem þú kemur með í viðtalstímana. Þú ert ábyrgur fyrir þínu lífi og sú ábyrgð verður ekki tekin af þér í meðferðinni. Þú skapar þér þinn eigin tilgang með því hvernig þú lifir lífi þínu og þeim áherslum sem þú gefur því. Þú ert alltaf að taka ákvarðanir sem hafa afleiðingar fyrir þig og líf þitt. Sumar ákvarðanir eru stórar, aðrar minni. Í meðferðinni skoðum við hvernig þú tekur ábyrgð á þér og þínum tilfinningum. Kemurðu þér undan að horfast í augu við hluti sem þér finnast erfiðir? Finnst þér erfitt að taka ákvarðanir sem eru í stærri kantinum og hafa með lífsstefnu þína að gera? Finnst þér vera lítill tilgangur með lífi þínu? Alla þessa þætti ber á góma í meðferðinni.

Að lokum

Að vera í viðtalsmeðferð getur stundum verið erfitt og tekið á tilfinningalega. Það þarf þó alls ekki alltaf að vera þannig. Sumir upplifa einungis létti að vera byrjaðir að fá meiri innsýn í vandamál sín og þá erfiðleika sem þeir eru að fást við. Þau dæmi sem hafa verið gefin hér eru ekki neinn allsherjar sannleikur um þessi mál og þitt ferli getur orðið öðruvísi að ýmsu leyti en dæmin hér á undan gefa til kynna. Vertu opinn fyrir því að þitt ferli er þitt ferli og þar af leiðandi ekki staðlað. Opinn hugur og forvitni um sjálfan þig er þó kannski besta veganestið sem þú getur tekið með þér í þetta ferðalag.

Gangi þér vel!

Páll Einarsson, MSc
Psychotherapist