ForsíðaStarfsferillMeðferð & RáðgjöfGreinarHafa sambandTenglar
Bookmark


Hvað er EMDR ?

Hvernig varð EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) til ?

Árið 1987 uppgvötaði Dr. Francine Shapiro fyrir tilviljun að ákveðnar augnhreyfingar höfðu heilandi áhrif á sársaukafullar minningar þegar þeim var beitt á ákveðinn hátt. Dr. Shapiro rannsakaði í kjölfarið áhrif þessara augnhreyfinga vísindalega og birtust niðurstöðurnar í Journal of Traumatic Stress, þar sem hún sagði frá árangri sínum með þessari nýju aðferð í vinnu sinni með fólk sem þjáðist af áfallaröskun.

Síðan þetta var hefur EMDR bæði þróast og breyst þar sem margir meðferðaraðilar hafa lagt sitt af mörkum. Í dag er EMDR mjög skipulagt meðferðarform sem sækir margt til annara meðferðarforma þó EMDR sé samt mjög sértækt og öðruvísi en önnur meðferðarform í eðli sínu.

Hvernig virkar EMDR ?

Enginn veit fyrir víst hvernig hinar og þessar meðferðir virka á heilann þó margt hafi verið skrifað og rannsakað. Við vitum þó með nokkuri vissu í dag að þegar einstaklingur upplifir erfiðar minningar þá á heilinn mjög erfitt með að vinnu úr þeim minningum eins og hann gerir venjulega með “tilfinningalega hlutlausar” minningar. Það er eins og ákveðnar minningar og upplifanir sem þeim fylgja séu fastar og vilji ekki heilast. Þegar áfallið er rifjað upp þá er það oft þannig að upplifuninn er jafn sterk og þegar atburðurinn gerðist vegna þess að minningin er enn þá til staðar með þeim tilfinningum sem henni tengjast. Minningar af erfiðum atburðum geta haft langvarandi áhrif á líðan okkar sem og á sýn okkar á okkur sjálf og annað samferðarfólk.

EMDR virðist hafa bein áhrif á það hvernig heilinn vinnur úr upplýsingum. Í kjölfarið á góðri EMDR meðferð þá losnar viðkomandi aðili við sársaukafullar minningar á þann hátt að þegar þær koma upp í hugann, þá hafa þær ekki lengur þau neikvæðu áhrif eins og áður var. Viðkomandi man ennþá atburðinn en hann vekur ekki upp sömu vanlíðan. Mörg önnur meðferðarform hafa það sama að markmiði. Aftur á móti þá virðist EMDR svipa til þess sem gerist í REM (rapid eye movement) svefni sem er djúpsvefn. Þannig að á margan hátt er hægt að segja að EMDR sé “lífeðlisfræðilegt” meðferðarform í kjarna sínum sem hjálpar einstaklingnum að vinna úr erfiðum minningum og tilfinningum á auðveldari hátt en áður hefur þekkst.

Hvernig er EMDR beitt í meðferðinni ?


Meðferðaraðilinn leitast við að finna það vandamál sem síðan veður viðfangsefni meðferðarinnar þar sem EMDR verður beitt. Skjólstæðingurinn byrjar á að kalla fram minninguna af atburðinum með þeim tilfinningum sem honum fylgja. Meðferðaraðilinn leiðir augnhreyfingarnar á meðan skjólstæðingurinn hefur athyglina á atburðinum sem veldur honum vanlíðan. Samhliða því sem skjólstæðingurinn lætur athyglina hvíla á atburðinum sem veldur honum vanlíðan þá leyfir hann hvaða minningum eða hugsunum að koma upp í vitundina sem þangað leita án þess að reyna að stjórna þeim eða stýra. Hver einstaklingur fyrir sig vinnur úr minningum og hugsunum á sinn eigin hátt og geta allavega minningar og hugsanir komið upp í heilunarferlinu sem í fyrstu virðast ekki tengjast þeim atburði sem olli vanlíðaninni. Meðferðaraðilinn leiðir áfram augnhreyfingarnar þangað til skjólstæðingurinn fer að upplifa vanlíðan sína minnka eða hverfa gagnvart upprunalega atburðinum og hann fer í kjölfarið að að upplifa jákvæða hugsanir um sig eins og “ég gerði það besta sem ég gat” eða eitthvað svipað. Á meðan á EMDR ferlinu stendur þá getur skjólstæðingurinn upplifað sterkar tilfinningar og geðshræringu en í enda meðferðarinnar segja skjólstæðingar oftast sömu söguna um að þeim líði mun betur en áður og að sársaukafulli atburðurinn valdi honum ekki lengur vanlíðan.

Hversu löng er EMDR meðferð ?

Lágmark einn tími fer fyrir meðferðaraðilann að skilja eðli vandans sem skjólstæðingurinn er að fást við og til að ákvarða hvort EMDR sé meðferðarform sem henti vandanum. Meðferðaraðilinn ræðir síðan við skjólstæðinginn um hvað EMDR er og svarar spurningum skjólstæðingsins sem upp kunna að koma. Um leið og meðferðaraðilinn og skjólstæðingurinn hafa í sameiningu ákveðið að nota EMDR þá getur meðferðin í raun byrjað. Hver tími er að jafnaði 60 til 90 mínútur. Eðli vandans, félagslegar aðstæður og lífshlaup viðkomandi hafa mikið að segja þegar kemur að því hversu marga tíma skjólstæðingurinn þarf til að vinna úr vandanum og að því leiti er EMDR ekki öðruvísi en önnur meðferðarform. Þó rannsóknir sýni að ekkert meðferðarform sé eins skilvirkt og EMDR til að vinna úr áföllum er henni að sjálfsögðu takmörk sett eins og öðrum meðferðarformum. Þess má einnig geta að EMDR er ýmist notað samhliða venjulegri viðtalsmeðferð eða ein og sér.

En virkar EMDR í raun og veru ?

Þegar þetta er skrifað hafa verið framkvæmdar yfir 20 stórar rannsóknir á EMDR sem gerir EMDR að mest rannsakaða meðferðarforminu sem fæst við áfallastreitu. Þessar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að EMDR meðferð minnkar eða algjörlega eyðir þeim sársauka sem oft er rótinn að áfallastreitu hjá langflestum þeirra sem fá EMDR meðferð.

Bæði amerísku geðlæknasamtökin (American Psychiatric Association) sem og Alþjóðlegu samtökin um rannsóknir á áfallastreitu (International Society for Traumatic Stress Studies), hafa borið lof á EMDR sem öfluga meðferð við áfallastreitu. Einnig Bresku heilbrigðissamtökin (United Kingdom Department of Health) sem og fjöldi annara virtra samtaka (U.S. Department of Veterans Affairs, Department of Defense, Israeli National Council for Mental Health). Nánari upplýsingar er hægt að fá á
www.emdria.org.

Er hægt að nota EMDR til að vinna úr öðrum vandamálum en áfallaröskun ?

Þó rannsóknir hafa sýnt fram á ágæti EMDR við áfallaröskun er einnig vitað að EMDR gefur mjög góðan árangur sem meðferðarform við meðhöndlun á öðrum vanda. Meðferðaraðilar hafa lýst góðum árangri við meðferð fjölda annara vandamála eins og:

Persónuleikaröskunum
Átröskunum
Kvíðaröskunum
Verkjaröskun
Félagsfælni
Flókið sorgarferli
Kynferðisleg misnotkun
Líkamlegt og andlegt ofbeldi
Fælni
Fíknir
Útlitsröskun
Streita
Langvarandi skömm


---
Páll Einarsson þýddi